Atvinnuleysi mældist 3,2% á fyrsta ársfjórðungi ársins. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar í dag. Á tímabilinu voru 190.400 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 184.300 starfandi og 6.100 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka var því 81,8% og hlutfall starfandi 79,2%.

Atvinnulausum fækkaði um 1.900 manns tímabílinu eða sem nemur um 1,1 prósentustigi. Atvinnleysi meðal kvenna mældist 2,5% en atvinnuleysi meðal karla var 3,8%. Atvinnuleysi var 3,1% á höfuðborgarsvæðinu en 3.4% utan þess.

Langtímaatvinnuleysi dregst saman

Á fyrsta ársfjórðungi ársins höfðu 400 manns verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur samanborið við 1.500 manns á fyrsta ársfjórðungi 2015. Langtímaatvinnuleysi, sem hlutfall af heildar fjölda atvinnulausra var 6,2% samanborið við 18,4% á sama tíma fyrir ári. Á heimasíðu Hagastofunnar segir að það hafi í raun ekki verið færri langtímaatvinnulausir síðan á fjórða ársfjórðungi 2008 þegar þeir voru um 200 manns.