Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands mældist atvinnuleysi 7,1% í maí, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. Að jafnaði voru 195.400 manns á vinnumarkaði og af þeim voru 13.800 án vinnu og í atvinnuleit. 6,5% karla voru atvinnulausir og 7,7% kvenna. Hlutfall atvinnulausra minnkaði um 0,4 prósentustig frá sama mánuði í fyrra og atvinnuþáttaka jókst um tvö prósentustig.

Fyrri mælingar sýna að í maí mánuði mælist atvinnuleysi tímabundið alltaf hæst. Helsta ástæða þess er að ungt fólk kemur inn á vinnumarkaðinn í leit að sumarstörfum. Í maí 2014 var atvinnuleysi á meðal 16-24 ára 16,1% á meðan það var 5% hjá 25 ára og eldri.  Þegar leiðrétt er fyrir árstíðasveiflum var hlutfall atvinnulausra 4,6% í maí og lækkar um 0,4 prósentustig frá því í apríl.