Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í júní 9,5% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði minnkað úr 13% frá því í maí. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans .

Um 23 þúsund manns voru á atvinnuleysisskrá, þar af um 16.200 atvinnulausir og um 6.700 í minnkuðu starfshlutfalli. Minnkun atvinnuleysis sem tengist hlutabótaleið er meginástæða breytingarinnar, en það lækkaði úr 5,6% í 2,1% milli mánaða. Almenna atvinnuleysið var hins vegar svipað, 7,4% í maí og 7,5% í júní.

Atvinnuleysið hefur þróast með álíka hætti og spáð var í vor þegar óvissan var sem mest. T.d. spáði Hagfræðideild að atvinnuleysið yrði 9,5% í júní eins og raunin varð. Við spáðum 13% hámarki atvinnuleysis í ágúst og september, en samkvæmt nýjustu spá Vinnumálastofnunar mun það verða rúmlega 9% í ágúst sem er mun minna en við reiknuðum með.

Atvinnuleysi tengt hlutabótaleið hefur lækkað hraðar en reiknað var með og var komið niður í 2,1% í júní, samanborið við 5,6% í maí og 10,3% í apríl. Töluverðar breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi atvinnuleysisbóta eftir að veirufaraldurinn hófst. Fyrst gafst möguleiki á hlutabótum sem varð til þess að ásókn í það kerfi varð verulega meiri en reiknað var með. Seinna gáfu stjórnvöld fyrirtækjum möguleika á greiðslu hluta launa í uppsagnarfresti og fór þá atvinnulausum í hlutabótaleið að fækka verulega.