Atvinnuleysi var 6,6% í apríl, samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Í mánuðinum voru að jafnaði 186.800 manns á vinnumarkaði og af þeim voru 174.400 starfandi og 12.300 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 82,3%, hlutfall starfandi 76,9% og atvinnuleysi var 6,6%.

Atvinnuleysi var einu prósentustigi lægra en í apríl 2012 en þá var atvinnuleysi 7,6%. Atvinnuleysi í apríl 2013 var 7,1% á meðal karla miðað við 8,2% í apríl 2012 og meðal kvenna var það 6% miðað við 7% í apríl 2012.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi í apríl mældist 5,8%, en var 6,3% í mars. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu minnkaði atvinnuleysi því um 0,6 prósentustig á milli mánaða og hlutfall starfandi jókst um 1,6 prósentustig.

Leitni árstíðaleiðréttingar á vinnuaflstölum sýnir að síðastliðna sex mánuði hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um 2,2% og atvinnuþátttaka því aukist um 0,8 prósentustig. Atvinnulausum fjölgaði um 1,2% en hlutfall atvinnulausra minnkaði hins vegar um 0,1 prósentustig. Starfandi fólki fjölgaði á þessu tímabili um 2,3% og hlutfallið jókst um 0,8 prósentustig.