Atvinnuleysi á fyrsta fjórðungi þessa árs var að meðaltali 5,8%, en á sama tíma fyrir ári var atvinnuleysið 7,2%, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Atvinnulausum fækkaði úr 12.700 á fyrsta fjórðungi 2012 í 10.300 á fyrsta fjórðungi 2013 og þá voru alls 167.900 starfandi á ársfjórðungnum í samanburði við 163.800 á sama tíma í fyrra. Hlutfall starfandi karla var 76,4% og starfandi kvenna 72,2%.

Atvinnuleysi mældist 6,1% hjá körlum og 5,4% hjá konum. Fjöldi starfandi á fyrsta ársfjórðungi 2012 var 167.900 manns eða 74,3% af mannfjölda. Á fyrsta ársfjórðungi 2013 fækkaði atvinnulausum um 2.400 frá fyrsta ársfjórðungi 2012. Atvinnulausum konum fækkaði um 800 og atvinnulausum körlum um 1.600. Starfandi fjölgaði á þessu tímabili um 4.100.

Þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur eru skilgreindir sem langtímaatvinnulausir. Á fyrsta ársfjórðungi 2013 höfðu um 2.600 manns verið atvinnulausir svo lengi eða 25% atvinnulausra. Á fyrsta ársfjórðungi 2012 voru þeir sem höfðu verið atvinnulausir ár eða lengur um 2.800 manns eða 21,8% atvinnulausra. Þegar litið er til ársins 2012 þá fjölgaði nokkuð í hópi langtímaatvinnulausra fram eftir árinu og náði hámarki á þriðja ársfjórðungi þegar 3.300 manns töldust langtímaatvinnulausir, eða 35,6% atvinnulausra.

Af þeim sem voru atvinnulausir á fyrsta ársfjórðungi 2013 voru að jafnaði 4.600 manns búnir að vera atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur eða 44,2% atvinnulausra. Til samanburðar höfðu 5.100 manns verið atvinnulausir í 2 mánuði eða skemur á fyrsta ársfjórðungi 2012 eða 40,4% atvinnulausra.