Skráð atvinnuleysi í apríl 2013 var 4,9% en að meðaltali voru 7.998 atvinnulausir í apríl og fækkaði atvinnulausum um 489 að meðaltali frá mars eða um 0,4 prósentustig, samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun.

Skráð atvinnuleysi að meðaltali frá janúar til apríl 2013 var 5,3%. Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 366 að meðaltali en konum um 123 og var atvinnuleysið 4,5% meðal karla og 5,3% meðal kvenna.

Atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 261 á höfuðborgarsvæðinu en um 228 að meðaltali á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 5,3% á höfuðborgarsvæðinu og minnkaði úr 5,7% í mars. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 4,1% og minnkaði úr 4,6% í mars. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 7,6%. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra, 1,8%.

Alls voru 8.343 manns atvinnulausir í lok apríl. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 7.474. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt er nú 4.438, fjölgar um 91 frá mars og eru um 53% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í apríl. Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár samfellt var 2.326 í apríllok, en 2.387 í marslok og fækkar um 61 frá marslokum.