Fjöldi einstaklinga sem sækja um atvinnuleysisbætur í fyrsta skipti í Bandaríkjunum féll óvænt um 6,7% á milli vikna, segir greiningardeild Kaupþings banka. Það er um 20.000 færri en í síðustu viku.

Ástæðan að baki færri nýskráningum má helst rekja til mikils vaxtar í bandarísku atvinnulífi, sem getur aftur á móti leitt til þess að erfitt getur orðið að fá nægt vinnuafl til að fylla allar stöður fyrirtækja.

Staða vinnumarkaðarins er þó almennt góð, enda mældist atvinnuleysið 4,7% í janúar og hefur ekki verið lægra í fjögur ár, auk þess sem 193.000 ný störf bættust við í mánuðinum.

Nýskráðir atvinnulausir voru um 278.000 í síðustu viku, en að meðaltali hafa 326.700 verið skráðir atvinnulausir á viku síðastliðna 12 mánuði.