Atvinnuleysi minnkaði í Bandaríkjunum í júlí, sem bendir til þess að samdrátturinn sé að ganga yfir, að því er segir í WSJ. Störfum fækkaði samt í mánuðinum, en minna en síðustu mánuði og hefur ekki fækkað jafn lítið frá því í ágúst í fyrra.

Störfum fækkaði um 247.000, en hagfræðingar sem Dow Jones Newswires spurði höfðu spáð því að störfum mundi fækka um 275.000.

Þó að fjöldi tapaðra starfa sé mikill í sögulegu samhengi benda tölur til þess að viðsnúningur sé framundan, segir WSJ. Þegar verst lét, í janúar í ár, fækkaði störfum um 741.000. Frá því samdrátturinn hófst í desember 2007 hefur störfum fækkað um 6,7 milljónir.

Hlutfall atvinnulausra er fundið út með könnun meðal heimila. Atvinnulausum fækkaði um 0,1% og voru þeir 9,4% í júlí. Fyrir innan við ári var atvinnuleysi undir 6%.