Vinnumálastofnun hefur birt tölur um atvinnuleysi í nóvember og miðast niðurstöðurnar við fjölda atvinnuleysisskráninga. Á landinu öllu lækkar atvinnuleysi úr 2,7% í 2,6% milli mánaða. Á höfuðborgarsvæðinu er atvinnuleysi nú 2,9% en 2,2% á landsbyggðinni. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu minnkaði milli mánaða en á sama tíma jókst atvinnuleysi töluvert á landsbyggðinni.

Á landsbyggðinni er mest atvinnuleysi á Norðurlandi eystra (3,1%) en minnst á Austurlandi (1,2%) sem rekja má til stóriðjuframkvæmda á svæðinu.

Í lok nóvember voru 4.352 manns á atvinnuleysisskrá á landinu, 1959 karlar og 2393 konur. Atvinnulausum í lok nóvember hefur fjölgað um 60 sé miðað við lok október. Atvinnulausum körlum fjölgaði meira en konum en körlum fjölgaði um 53 og konum um 7.

Sé leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum mælist atvinnuleysi 2,9% í nóvember og lækkar frá fyrra mánuði. Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi er einnig lægra en það var á sama tíma í fyrra þegar það mældist 3%.