Mikil minnkun varð á atvinnuleysi í Þýskalandi í júlímánuði, en það kom sérfræðingum nokkuð á óvart og þykir efnahagsbati Þýskalands loks farinn að hafa jákvæð áhrif á bágt atvinnuástand þjóðarinnar, segir í frétt Financial Times. Elga Bartsch, hagfræðingur hjá Morgan Stanley, sagði að niðurstöðurnar væru talsvert betri en vænst var. Atvinnulausum hefur fækkað um 84.000 síðan í júní og mælast nú atvinnulausir í Þýskalandi 10,6% samkvæmt tölum sem atvinnumálastofnun Þýskalands birti í gær.

Flestir greiningaraðilar spá um 2% hagvexti í Þýskalandi það sem eftir er árinu, en vara jafnframt við að næsta ár gæti reynst ríkinu erfitt. Hæging á hagvexti í heiminum, þá sérstaklega í Bandaríkjunum, gæti haft veruleg áhrif á afkomu útflutningsafurða Þýskalands.
Aðrir áhættuþættir eru óstöðugleiki í Mið-Austurlöndum, hækkandi vextir á evrusvæðinu og fyrirhuguð þriggja punkta hækkun virðisaukaskatts í Þýskalandi í janúar næstkomandi, segir í fréttinni.

Bartsch segist bjartsýn á ástandið á árinu, en segir að mörg vafaatriði ráði úrslitum um næsta ár. Segir hún að virðisaukaskattshækkunin muni hægja á hagvexti, en muni þó ekki stöðva efnahagsbata Þýskalands ein og sér. Mesta áhættan er að hennar mati hvernig efnahag Bandaríkjanna reiðir af.

Erfitt er að meta ástæður minnkunar atvinnuleysis, en tímabundnar ráðningar eru taldar eiga einhvern þátt þar í, einnig er Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu talin skekkja niðurstöðurnar að einhverju leyti.