Samkvæmt nýjustu skýrslu Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði voru 14.101 án vinnu í lok apríl og skráð atvinnuleysi 8,1%. Á höfuðborgarsvæðinu var atvinnuleysið 8,7% en 6,9% á landsbyggðinni. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 13,6% en minnst á Norðurlandi vestra, 4,1%. Þá var atvinnuleysi meðal karla 8,6% og 7,4% meðal kvenna.

Atvinnuleysi minnkaði um 0,5% frá lokum mars. Gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir að atvinnuleysið minnki áfram í maí, en verði enn mjög hátt í sögulegu samhengi eða á bilinu 7,4%-7,8%. Nú hafa alls 8.348 verið atvinnulausir í lengur en 6 mánuði og fjölgar um 159 frá lokum mars. Um 59% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá í lok apríl hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði.

Um 18% allra atvinnulausra í apríl voru á aldrinum 16-24 ára eða 2.523 manns. Fækkar þeim um 218 frá því mars. Á sama tíma fyrir ári var fjöldi atvinnulausra ungmenna 3.024.