Skráð atvinnuleysi í maí var 3,6%, en að meðaltali voru 6.293 atvinnulausir í mánuðinum. Atvinnulausum fækkaði því um 508 að meðaltali frá apríl, eða um 0,5 prósentustig. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vinnumálastofnunar .

Atvinnulausum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði að meðaltali um 216 milli mánaða og mældist 3,9% í maí. Á landsbyggðinni fækkaði atvinnulausum um 292 og mældist atvinnuleysi 3,2%. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 5,7%, en minnst á Norðurlandi vestra, 1,7%.

3.422 einstaklingar hafa verið atvinnulausir lengur en sex mánuði samfellt og fækkar um 158 milli mánaða. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár samfellt var 1.796 og fækkar um 11.

Í tilkynningunni segir að 1.078 einstaklingar á aldrinum 18-24 ára hafi verið atvinnulausir í lok maí, en það eru um 16% allra atvinnulausra. Atvinnulausum í þessum aldursflokki fækkar því um 169 milli mánaða.