„Reikna má með að atvinnuleysi verði minna í ár en á því síðasta," segir í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka. Er þar farið yfir nýjar tölur um atvinnuleysi sem Vinnumálastofnun gaf út sl. föstudag.

Að meðaltali voru 11.760 manns án atvinnu í desember og fjölgaði þeim um 412 manns frá fyrri mánuði. Í sama mánuði árið á undan voru að meðaltali 12.745 án atvinnu, eða um 8,0% af vinnuafli. „Hefur því bótaþegum fækkað á milli ára og atvinnuleysi minnkað, mælt sem hlutfall bótaþega af vinnuafli. Þessi þróun er í takti við það sem við reiknuðum með í haust þar sem við spáðum að skráð atvinnuleysi myndi að meðaltali vera um 7,4% á árinu sem varð raunin," segir í Morgunkorni.

Atvinnuleysi mældist 7,3% í desember síðastliðnum sem er í takti við það sem reiknað var með. Þannig hafði Vinnumálastofnun fyrir um mánuði síðan áætlað að atvinnuleysið yrði á bilinu 7,2%-7,4%. Frá nóvembermánuði hefur skráð atvinnuleysi því aukist um 0,2 prósentustig.

Í þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka var gert ráð fyrir að það yrði að meðaltali 6,6% og færi svo niður í 6,0% árið 2013. Erum við nokkuð svartsýnni en bæði Seðlabankinn og Hagstofan sem reikna með 6,2% - 6,4% atvinnuleysi á árinu og 5,8% atvinnuleysi á næsta ári.