Meðalatvinnuleysi í evrulöndunum mældist 11,2% í júní, sem er óbreytt tala frá maímánuði, en atvinnulausum fjölgaði þó milli mánaða. Í júní árið 2011 nam atvinnuleysi á svæðinu 10,0% og árið 2010 nam atvinnuleysi í júnímánuði 9,5%. Atvinnuleysi í júní hefur ekmki verið meira síðan mælingar hófust árið 1995.

Atvinnulausum á evrusvæðinu fjölgaði um um 123 þúsund frá fyrri mánuði eða um 0,1% og eru nú 17,8 milljónir án atvinnu á evrusvæðinu. Aukningin frá júnímánuði 2011 nemur rúmum tveimur milljónum.

Minnsta atvinnuleysið var í Austurríki (4,5%), Hollandi (5,1%) og Þýskalandi og Lúxemborg (5,4%). Atvinnuleysi er mest á Spáni (24,8%). Á síðustu tólf mánuðum hefur atvinnuleysi minnkað í sjö ESB-ríkjum, aukist í nítján ríkjum, en atvinnuleysi í Svíþjóð stóð í stað. Mesta minnkunin var í Eistlandi, þar sem atvinnuleysi fór úr 13,6% í 10,9%. Mesta aukningin var í Grikklandi þar sem atvinnuleysi fór úr 16,2% í 22,5%, en athuga ber að í tilviki Grikklands er miðað við tölur frá í apríl.

Tilkynning Eurostat.