Atvinnuleysi mældist 12,2% á evrusvæðinu í apríl, og hækkaði um 0,1 prósentustig milli mánaða. Atvinnuleysi hefur aldrei mælst hærra á svæðinu en fjölgun milli mánaða var 95.000 manns, í þeim 17 löndum sem notast við evruna. Heildarfjöldi atvinnulausra er þar með orðinnn 19,38 milljónir manna.

Evrópskir fjölmiðlar hafa fjallað um þetta mesta atvinnuleysi í sögu evruríkjanna. Í umfjöllun BBC er bent á að atvinnuleysi á Spáni og Grikklandi sé yfir 25%. Lægst er hlutfall atvinnulausra í Austurríki, eða 4,9%. Samkvæmt Eurostat, hagstofu ESB, er atvinnuleysi í Þýskalandi 5,4% og 5,6% í Lúxemborg.

Atvinnuleysi ungs fólks er sérstakt áhyggjuefni í mörgum evruríkjum. Um 3,6 milljónir manna undir 25 ára aldri eru án atvinnu, eða um 24,4% ungs fólks. Á Ítalíu er hlutfallið 40,5%, á Spáni er það 56,4% og 62,5% grískra ungmenna eru án atvinnu.