Bandaríska hagkerfið skapaði 178.000 ný störf í nóvember og er atvinnuleysi nú 4,6% samkvæmt opinberum hagtölum. Atvinnuleysi þar í landi hefur ekki verið svo lágt síðan í ágúst 2007. Alls hafa skapast 15,6 milljónir nýrra starfa í Bandaríkjunum frá snemma árs 2010.

Þrátt fyrir mikið tal um sterka stöðu bandaríska vinnumarkaðarins segja þessar tölur þó ekki alla söguna.

Meðaltekjur á hverja klukkustund drógust óvænt saman í nóvember í fyrsta skipti á þessu ári. Alls fóru 446.000 af vinnumarkaðnum í nóvember og stendur fjöldi Bandaríkjamanna sem ekki eru í vinnu í sögulegu hámarki, en alls 95,1 milljónir Bandaríkjamanna eru utan vinnumarkaðarins. Atvinnuþátttökuhlutfallið lækkaði þ.a.l. í nóvember í 62,7% úr 62,4% í október, þegar hlutfallið náði 35-ára lágmarki.

Atvinnuleysi fer því minnkandi í Bandaríkjunum vegna smækkandi vinnumarkaðar. Alls voru 159,7 milljónir á bandarískum vinnumarkaði í október borið saman við 159,5 milljónir í nóvember, en markaðurinn minnkaði um 220.000 manns milli mánaða.

118.000 hlutastörf sköpuðust í nóvember borið saman við 9.000 störf þar sem einstaklingar eru í fullu starfi. Leiðrétt fyrir árstíðasveiflur jukust hlutastörf um 678.000 á meðan full störf drógust saman um 628.000. Frá september hafa 628.000 hlutastörf skapast á meðan full störf hafa minnkað um 99.000. Á sama tíma er fjöldi einstaklinga með fleira en eitt starf í nær 100-ára hámarki. Það er því ljóst að gæði vinnumarkaðarins í Bandaríkjunum hefur farið versnandi.

Alls eru yfir 102,5 milljónir Bandaríkjamanna annaðhvort atvinnulausir eða utan vinnumarkaðarins.