Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag sóttu um 3,2 milljónir Bandaríkjamanna í fyrsta sinn um atvinnuleysisbætur í síðustu viku og frá miðjum mars hafa því 33,5 milljónir manna sótt um bætur þar í landi. Margir biðu spenntir eftir að sjá hvernig markaðir vestanhafs myndu taka í nýjustu tölur hvað varðar atvinnuleysi í landinu.

Skammt er að segja frá því að tölurnar virðast ekki fara of illa í markaði, enda höfðu margar spár sérfræðinga reiknað með að umsóknir um atvinnuelysisbætur yrðu enn fleiri í síðastliðinni viku.

Gengi Dow Jones vísitölunnar hefur þegar þetta er skrifað hækkað um 1,15%, en skammt er síðan markaðir vestanhafs opnuðu fyrir viðskipti dagsins. Þá hefur Nasdaq hækkað um 1,17% í fyrstu viðskiptum. Loks hefur S&P 500 vísitalan hækkað 1,24% eftir að markaðir opnuðu þennan fimmtudaginn.