Atvinnuleysi heldur áfram að dragast saman í Bretlandi og mælist nú það lægsta þar í landi í sjö ár. En á fyrsta ársfjórðungi mældist atvinnuleysi 5,5%, það lægsta síðan á miðju ári 2008.

Á fyrsta ársfjórðungi voru 1,83 milljónir atvinnulausir, sem er 35.000 færri en á ársfjórðungnum á undan. Fjöldi vinnandi í landinu jókst og mældust 31.1 milljón með vinnu. Atvinnuleysi dróst saman um 1,3% miðað við sama tímabil í fyrra.

Laun, að frádregnum bónus greiðslum, hækkuðu um 2,2% á ársfjórðungnum miðað við sama tímabil í fyrra. Laun eru því að hækka á mesta hraða sem mælst hefur í nærri því fjögur ár. Þetta er sjöundi mánuðurinn í röð þar sem laun hækka.

Þrátt fyrir þessar góðu fréttir hefur Seðlabanki Bretlands lækkað spá sína um hagvöxt úr 2,9% niður í 2,5% fyrir árið og úr 2,9% niður í 2,6% fyrir árið 2016.