Atvinnuleysi ungs og ófaglærðs fólks hefur lækkað allsvakalega,“ segir Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands. Í tölum Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi á Íslandi má sjá mikla fækkun á atvinnulausu ófaglærðu ungu fólki síðastliðið ár.

Að sögn Ásgeirs er ástæða batnandi stöðu á vinnumarkaði m.a. þau straumhvörf sem urðu í atvinnusköpun á síðasta ári fyrir ófaglært fólk hérlendis, og þá sérstaklega meðal ungs fólks. Hann telur uppsveiflu ferðaþjónustu draga vagninn í atvinnusköpuninni og að ungt og ófaglært fólk fái nú atvinnutækifæri í þeim geira. Ör vöxtur hefur verið í ferðaþjónustu á síðustu misserum og samkvæmt talningu Ferðamálastofu á erlendum gestum sem fóru um Leifsstöð á tímabilinu janúar til júlí árin 2012 og 2013 var heildarfjöldinn á tímabilinu á fyrra árinu 357.006 manns en 434.930 manns á því seinna.

„Við stöndum nú á þeim tímamótum að ferðaþjónusta er nú farin að hafa veruleg áhrif á efnahagslíf landsins með atvinnusköpun og einnig fjárfestingu sem meðal annars má sjá á mörgum áætlunum um hótelbyggingar," segir Ásgeir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð.