Að jafnaði voru 197.500 á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í júlímánuði, sem jafngildir 84,5% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 191.200 starfandi og 6.300 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 81,8% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,2%. Þetta kemur fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands .

Samanburður mælinga fyrir júlí 2014 og 2015 sýnir að atvinnuþátttaka minnkaði um 0,5 prósentustig. Hlutfall starfandi fólks af mannfjölda minnkaði um 0,3 stig og atvinnuleysi var nánast það sama og það var í júlí 2014.

Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi 4,3% í júlí

Samkvæmt árstíðaleiðréttingu var fjöldi fólks á vinnumarkaði 190.600 í júlí 2015 sem jafngildir 81,9% atvinnuþátttöku, sem er 1,3 prósentustigum lægri en hún var í júní. Fjöldi atvinnulausra í júlí var samkvæmt árstíðaleiðréttingu 8.100 sem er aukning um 1.800 manns frá því í júní. Hlutfall atvinnulausra jókst úr 3,3% í maí í 4,3% í júlí.

Leiðrétt hlutfall starfandi fólks í júlí 2015 var 78,4%, sem er lækkun um tvö prósentustig frá því í júní. Þrátt fyrir þessa aukningu á milli mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuleysi lækkar enn, eða um 0,2 prósentustig sé horft til síðustu sex mánaða og um 0,7 stig á síðustu tólf mánuðum. Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur aukist um 0,6 prósentustig og um eitt stig síðustu tólf mánuði.