Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 198.800 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í apríl en það jafngildir 84,1% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 188.900 starfandi og 9.800 án vinnu og í atvinnuleit.

Rannsóknin sýnir að hlutfall starfandi af mannfjölda í mánuðinum var 79,9% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 4,9%. Samanburður mælinga fyrir apríl 2015 og 2016 sýnir að atvinnuþátttakan jókst um 2,1 prósentustig.

Fjöldi starfandi jókst um 8.900 og hlutfallið af mannfjölda jókst um 2,5 stig. Atvinnulausum fækkaði þannig um 800 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu minnkaði um 0,6 prósentustig.

Í rannsókninnni er bent á að íslenskur vinnumarkaður sveiflast reglulega milli mánaða útaf árstíðabundnum þáttum. Þetta má t.d. greinlega sjá á vormánuðum hvers árs þegar ungt fólk (16-24 ára) streymir inn á vinnumarkaðinn í leit að sumar- og/eða framtíðarstörfum. Áhrifin eru þá helst þau að til skamms tíma eykst atvinnuleysi verulega. Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi mælist samkvæmt þessu 3,7% í apríl.