Hlutfall starfandi af mannfjölda var 77,8% í aprílmánuði og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 5,5%. Þetta kemur fram í nýrri Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands .

Að jafnaði voru 191.600 á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði í mánuðinum, sem jafngildir 82,3% atvinnuþátttöku, en af þeim voru 181.000 starfandi og 10.600 án vinnu og í atvinnuleit.

Samanburður mælinga fyrir apríl 2014 og 2015 sýnir að þátttaka fólks á vinnumarkaði jókst um 3,2 prósentustig og fjölgun vinnuaflsins var um 10.900 manns.

Starfandi fólki fjölgaði um 11.200 manns og hlutfallið jókst um 3,4 prósentustig. Atvinnulausum fækkaði lítillega eða um 300 manns en hlutfall atvinnuleysis er lægra sem nemur 0,5 prósentustigum. Fólki sem stendur utan vinnumarkaðar fækkaði um 6.400 manns.