Draga mun úr atvinnuleysi á næstu árum þótt það verði ekki jafnt lágt og fyrir kreppu. Þetta kom fram í máli Daníels Svavarssonar, forstöðumanns Hagfræðideildar Landsbankans.

Daníel kynnir nú Þjóðhag, nýja hagspá deildarinnar. Daníel sagði atvinnuleysi hafa verið of lítið áður en kreppan skall á.

Daníel benti á að atvinnuleysi hér hafi aukist verulega í kreppunni, farið úr 2% fyrir hrun í 9% á hálfu ári. Hægar hafi dregið úr því en menn hafi vonast til. 4

Atvinnuleysi mældist 6,8% í október sem þó er undir meðaltali aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Daníel sagði ljóst að langtímaatvinnuleysi hafi hér skotið rótum. 40% fólks á atvinnuleysisskrá hafi verið þar lengur en í ár og séu meiri líkur á að hluti fólksins flytjist yfir á aðrar tegundir bóta.

Hagfræðideildin gerir ráð fyrir því að í lok árs verði atvinnuleysi 7%. Áfram muni draga úr því. Atvinnuleysi fari í 6,2% undir lok næsta árs og 5% undir lok árs 2013.