Vinnumálastofnun Bandaríkjanna (e. Labor Department) hefur greint frá því að Bandaríska hagkerfið skapaði 2,5 milljón störf síðastliðinn maí. Þessi þróun fer þvert á fyrri spár en áætlað var að um 8 milljónir Bandaríkjamanna myndu missa vinnuna í síðasta mánuði.

Atvinnuleysi vestanhafs hefur því dregist saman og er nú 13,3%, samanborið við 19,5% sem spáð var. Yahoo Finance segir frá.

Hlutabréf í Bandaríkjunum hafa í kjölfarið hækkað talsvert. S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 2,23% og Dow Jones vísitalan hefur hækkað um 2,89% það sem af er dags.