Atvinnuleysi mældist 11,3% á evrusvæðinu í síðasta mánuði og er það óbreytt frá í júní. Hvað sem því líður hefur atvinnuleysi á evrusvæðinu aldrei áður verið meira en um þessar mundir. Til samanburðar mældist 8,3% atvinnuleysi í Bandaríkjunum á sama tíma og 4,3% atvinnuleysi í Japan. Þá mælist 5,5% atvinnuleysi í Þýskalandi. Hér á landi var 4,7% atvinnuleysi í júlí.

Talsverður munur er á atvinnuleysi í evruríkjunum. Á sama tím og það er 4,5% í Austurríki þá stendur það í 25,1% á Spáni og 23,1% á Grikklandi.

Þetta háa hlutfall jafnast á við að 18 milljónir manna séu án atvinnu innan evruríkjanna.

AP-fréttastofan bendir á að staðan á Spáni og Grikklandi sé afar slæm, ekki síst fyrir þær sakir að þar er um og yfir 53% fólks undir 25 ára aldri án atvinnu.