Mark Carney, bankastjóri Seðlabanka Englands, segir að bankinn muni ekki hækka vexti fyrr en atvinnuleysi er komið niður í 7% eða undir það. Stýrivextir eru 0,5%.

Carney segir að til þess að þetta markmið náist þurfi að verða til 750 þúsund ný störf og það geti tekið þrjú ár. Atvinnuleysið í Englandi er nú 7,8%, eftir því sem fram kemur á vef BBC.

Carney segir að 7% atvinnuleysi sé ekki lokamarkmið heldur punktur sem þurfi að ná áður en stýrivextir verði endurskoðaðir. Við stýrivaxtaákvarðanir verði tekið mark á atvinnuleysistölum nema að verðbólgan verði það mikil að hún stefni fjármálastöðugleika í hættu.