Skráð atvinnuleysi í júlí 2013 var 3,9%, en að meðaltali voru 6.874 atvinnulausir þann mánuðinn. Þetta sýna nýjar tölur Vinnumálastofnunar. Hlutfallstala atvinnuleysis breyttist ekki milli mánaða. Skráð atvinnuleysi að meðaltali frá janúar til júlí á þessu ári var 4,8%.

Í júlí fækkaði körlum um 161 að meðaltali á atvinnuleysisskrá en konum fjölgaði um 100 og var atvinnuleysið 3,2% meðal karla og 4,7% meðal kvenna. Atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 48 á höfuðborgarsvæðinu en um 13 að meðaltali á landsbyggðinni. Atvinnuleysið var 4,5% á höfuðborgarsvæðinu og breyttist hlutfallstalan ekki frá júní. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 2,8% og breyttist ekki frá júní. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 5,4%. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra, 1%.

Í júlí voru samtals 1.095 manns skráðir í vinnumarkaðsúrræði. Þessi úrræði eru greidd af Atvinnuleysistryggingasjóði, en viðkomandi einstaklingar eru í vinnu og teljast því ekki með í atvinnuleysistölum.