*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 22. desember 2020 11:55

Atvinnuleysið komið í 7,1%

Nærri 15 þúsund manns voru atvinnulausir í nóvember. Ríflega fimmtungur mannfjöldans eru utan vinnumarkaðar.

Ritstjórn

Í nóvember voru 14.900 einstaklingar atvinnulausir, eða sem nam 7,1% af vinnuaflinu, sem er aukning um 0,3 prósentustig frá því í október að því er Hagstofa Íslands greinir frá upp úr vinnumarkaðsrannsókn.

Atvinnuþátttakan var 79,7% af vinnuaflinu, árstíðarleiðrétt, sem er lækkun um 0,2 prósentustig frá því í október, en 0,7 prósentustiga aukning frá því í nóvember 2019. Atvinnuleysið hefur aukist um 3,1 prósentustig milli ára, en hlutfall starfandi hefur dregist saman um 1,8 prósentustig milli ára.

Árstíðarleiðrétt hlutfall starfandi var því 74,3% af mannfjöldanum í nóvember í ár. Í nóvember voru að jafnaði samtals um 195.900 einstaklingar á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði, sem jafngildir um 78,2% atvinnuþátttöku, en þar af voru 183.400 starfandi, eða um 73,2% og 12.600, eða um 6,4% án atvinnu og í atvinnuleit.

Á sama tíma er áætlað að 54.700 manns hafi verið utan vinnumarkaðar eða 21.8% af mannfjöldanum. Í nóvember 2020 voru rétt rúmlega 30.500 einstaklingar sem höfðu þörf fyrir atvinnu sem ekki var uppfyllt, eða 14,9% af öllum sem annað hvort voru á vinnumarkaði eða töldust mögulegt vinnuafl.

Samkvæmt skilgreiningu vinnumarkaðsrannsóknar voru 41,1% af þessum hópi atvinnulausir, 23,9% voru tilbúnir að vinna en ekki að leita, 5,4% voru í vinnuleit en ekki tilbúnir að vinna og 29,6% voru starfandi en vinnulitlir og vildu vinna meira.