Í september var atvinnuleysi hér á landi 3%, eða 5.900 manns af 193.500 manns á vinnumarkaði. Það þýðir að 187.700 voru starfandi, en sú tala miðast við aldurinn 16-74 ára og jafngildir hún 79,6% atvinnuþátttöku að því er Hagstofan greinir frá. Á sama tíma fyrir ári var atvinnuþátttakan um 82,3% svo hún hefur dregist saman um 2,7 prósentustig.

Fækkaði starfandi um 1.600 manns en hlutfalla starfandi af mannfjölda lækkaði einnig um 2,7 prósentustig og stóð hlutfall og fjöldi þeirra sem voru atvinnulausir í stað á milli ára. Alls fjölgaði um 7.800 manns utan vinnumarkaðar á þessu ári, og fór fjöldinn úr 41.900 í 49.700 í september í fyrra í september í ár.

Þegar leiðrétt er fyrir árstíðabundnum þáttum lækkar atvinnuþátttakan um 0,3 prósentustig milli ágúst og septembermánaða, en heildaratvinnuleysið jókst úr 2,6% í 3,0%.