Í desember voru 201.600 manns á aldrinum 16 til 74 ára að jafnaði á vinnumarkaði að því er fram kemur í vinnumarkaðsannsókn Hagstofu Íslands , en það jafngildi 79,6% atvinnuþátttöku.

Af þeim voru 198.800 starfandi og 2.800 án vinnu og í atvinnuleit, sem gerir 1,4% atvinnuleysi og að hlutfall starfandi af heildarmannfjölda nam 78,5%. Þannig mældust 3.300 færri atvinnulausir í desember 2018 en 2017, en þá voru þeir 6.100 eða 3,0% af vinnuaflinu. Árstíðarleiðrétt atvinnuleysi nam hins vegar 3,6% í desember 2018.

Milli 2017 og 2018 minnkaði vinnuaflið örlítið eða um 100 manns, og hlutfall þess af mannfjölda lækkaði um 2,2 prósentustig, en starfandi fólki fjölgaði hins vegar um 3.200 manns. Þannig lækkaði hlutfall starfandi af mannfjölda um 0,8 prósentustig.