Þeim sem sækja um atvinnuleysisbætur í Bandaríkjunum fjölgaði um 7.000 í síðustu viku, og hafa þeir ekki verið fleiri í meira en 6 ár, samkvæmt opinberum tölum.

455.000 manns sóttu um atvinnuleysisbætur í vikunni sem lauk 2. ágúst, en þeir voru 448.000 í vikunni þar áður.

Ýmsir vilja þó meina að tölurnar séu ögn skekktar vegna aðgerða bandarískra stjórnvalda til að auka atvinnuleysisbætur til að minnka áhrif af efnahagsástandinu á almenning. Haft hefur verið samband við þá sem talið er að uppfylli skilyrði til að geta fengið bætur og þeim bent á að sækja um þær.

Viðmælandi Reuters varar við að erfitt sé að meta áhrif þessara aðgerða en segir þau geta varað í allt að sex vikur.

3,3 milljónir Bandaríkjamanna þiggja nú atvinnuleysisbætur.

Þetta kemur fram í frétt Reuters.