Hagvöxtur á Suðurnesjum og Austurlandi jókst um rúm fimmtíu prósent á árunum 2004 til 2009. Byggðastofnun telur að atvinnulíf á landsbyggðinni sé nú fjölbreyttara en áður. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Í skýrslu Byggðastofnunar um hagvöxt landshluta á árunum tvö þúsund og fjögur til níu er framleiðsluaukningin skoðuð eftir landshlutum, sem og uppbygging atvinnulífsins. Þar kemur fram að hagvöxtur á landsbyggðinni var 26% á þessum tíma, en 21% á höfuðborgarsvæðinu. Hagvöxturinn var meiri framan af á höfuðborgarsvæðinu vegna þenslu í fjármálakerfinu en eftir gengishrun krónunnar var sjávarútvegurinn öflugri og þá tók landsbyggðin meira við sér.

Í skýrslunni kemur fram að á þessum árum hafi átt sér stað ákveðnar breytingar á atvinnulífinu. Sjávarútvegur hafi færst meira til suðvesturhluta landsins, einkum til Suðurnesja vegna nálægðar við útflutningshafnir og Keflavíkurflugvöll. Þá hafi hlutur landsbyggðarinnar í stóriðju aukist með álverinu á Reyðarfirði og stækkun Norðuráls á Grundartanga. Þá eigi landsbyggðin stærri hlut í fjármálafyrirtækjum og fasteignum og hlutur hennar í verslun, hótel- og veitingarekstri og samgöngum fari vaxandi. Í heild virðist atvinnulíf á landsbyggðinni því orðið fjölbreyttara en áður.