Viðskiptaþing, sem haldið verður á morgun, er að þessu sinni helgað íslensku krónunni og er yfirskrift þingsins „íslenska krónan, byrði eða blóraböggull."

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir að þingið sé á hverju ári helgað brýnustu hagsmunamálum viðskiptalífs hérlendis, og hafi fjörkippur sá sem einkennir alþjóðavæðingu undandarin misseri vakið spurningar um hagnýtt gildi krónunnar fyrir hérlend fyrirtæki. „Menn eru almennt sammála um að krónan hafi gengt sínu hlutverki prýðilega hingað til, en vegna breyttra aðstæðan og umfangs viðskiptalífsins, virðist sem margir séu þeirrar skoðunar að við óbreyttar aðstæðar henti hún ekki," segir Finnur. "Til að mynda vilja 63% aðildarfélaga Viðskiptaráðs Íslands, samkvæmt könnun sem framkvæmd var í desember 2007 og janúar 2008, að tekinn verði upp annar lögeyrir á Íslandi."

Nauðsyn á opinni umræðu

Finnur segir ljóst að nokkurt bil virðist á milli skoðana atvinnulífs og stjórnvalda í ýmsu er varða peningamál, og í raun virðist stjórnvöld ekki hafa mótað sér sameiginlega afstöðu til málsins. "Niðurstöður skoðanakönnunar Viðskiptaráðs gefa aftur á móti glögglega til kynna að atvinnulífið geti illa unað við óbreytt ástand. Því er nauðsynlegt að hér verði komið á opinni umræðu um hver vandamálin við núverandi peningastefnu eru og hvaða kostir eru í stöðunni," segir hann.

Á meðal þátttakenda á þinginu má nefna Erlend Hjaltason, forstjóra Exista, Richard Portes, sérfræðing í alþjóðamálum, Jurgen Stark, stjórnarmann í evrópska seðlabankanum, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, Róbert Wessman, forstjóra Actavis, Tryggva Þór Herbertsson, forstjóra Askar Capital og Katrínu Pétursdóttur, forstjóra Lýsis. Þá munu Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, ávarpa þingið.