Vottunarstofan Vottun hf., hefur verið seld til starfsmanna félagsins, þar á meðal Kjartans J. Kárasonar framkvæmdastjóra þess og Davíð Lúðvíkssyni úttektarstjóra að því er Fréttablaðið greinir frá.

Davíð var áður starfsmaður stærsta eigandans, Samtaka iðnaðarins og stjórnarformaður Vottunar. Aðrir eigendur vottunarstofunnar voru önnur félagasamtök í atvinnulífinu, þar á meðal Félag atvinnurekenda, en mörg hver hinna voru til húsa í Húsi Atvinnulífsins í Borgartúni.

Þar má nefna Viðskiptaráð Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtök fjármálafyrirtækja, en einnig voru hin gömlu félög Alfesca (sem var afskráð 2012) og Burðarás sem voru öflug fyrir hrun meðal hluthafa.

Vottun hf., var stofnað árið 1991 utan um vottun stjórnunarkerfa hjá fyrirtækjum og stofnunum. Naut félagið faggildingar Einkaleyfastofu og gat því veitt félögum jafnlaunavottun þegar lög um þau tóku gildi.

Þó meðal aðila sem hafi fengið vottun í gegnum félagið séu fjölmörg ráðuneyti, hefur félagið verið rekið með tapi mörg undangengin ár og með litlum afskiptum eigenda sinna.

Í nóvember 2018 kom svo í ljós að Vottun hf. hafði misst faggildingu sína hjá Einkaleyfastofu, en þó félagið fengi hana aftur nokkrum mánuðum síðan vildu hluthafar í kjölfarið losa sig við félagið sem þeir hafa nú gert.