Elsa Fornero, atvinnu- og velferðarmálaráðherra Ítalíu, hefur fengið lögum breytt á þann veg að vinnuveitendum er nú gert auðveldara en áður að segja upp starfsfólki í hagræðingarskyni þegar að kreppir í efnahagslífinu Þetta þykir með róttækari breytingum á vinnumarkaði á Ítalíu um árabil. Óttast er að viðbrögðin verði harkaleg og fylgja tíu lögreglumenn ráðherranum hvert fótmál.

Í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian er bent á að Fornero hafi ástæðu til að vera vör um sig. Þegar ríkissstjórn Silvio Berlusconi reyndi að breyta ítölskum vinnumarkaðslögum fyrir nákvæmlega áratug síðan var Marco Biagi, ráðgjafa atvinnumálaráðherra Ítalíu, myrtur fyrir utan heimili sitt í Bologna. Liðsmenn Rauðu herdeildarinnar, sem stóðu fyrir fjölmörgum hryðjuverkum á áttunda áratug síðustu aldar, sögðust bera ábyrgð á morðinu. Talið er að sami hryðjuverkahópur hafi sömuleiðis myrt annan ráðgjafa atvinnumálaráðherra landsins þremur árum fyrr.

Þá mótmæltu rúmlega tvær milljónir manna áformum ríkisstjórnarinnar á götum Rómar. Í dagblöðum frá þessum tíma kemur fram að óttast var að vargöld brytist út í landinu vegna andstöðu landsmanna gegn lagabreytingunni.

Elsa Fornero
Elsa Fornero
Elsa Fornero, atvinnu- og velferðarmálaráðherra Ítalíua, er sögð hafa ástæðu til að óttast um líf sitt.