„Ég er sjálf í atvinnurekstri á byggingavörumarkaði. Einn af mínum helstu samkeppnisaðilum var „núllaður“ og tekin yfir af eignarhaldsfélagi Landsbankans. Skipt um kennitölu og rekið af almannafé. Einkafyrirtæki sem var gjaldþrota en skattpeningar almennings voru notaðir til að halda áfram," útskýrir Agnes Arnardóttir í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu.

Agnes vekur athygli á því að nú þykir vænlegast í atvinnurekstri að skipta um kennitölu, skilja eftir skuldir og halda áfram rekstri. „Þetta er einmitt meinið að mínu mati við íslenskt atvinnulíf og íslenska bankastarfsemi í dag," segir hún.

Ólíðandi kennitöluskipti

„Mitt fyrirtæki er í tímabundnum fjárhagsvanda með takmarkaðan aðgang að lausafé. Mitt fyrirtæki er með gengistryggt lán sem eins og allir vita var dæmt ólöglegt. Þegar þetta lán var tekið þá miðuðu allar áætlanir við endurgreiðslu af þeirri upphæð sem tekin var að láni en ekki þeirri upphæð sem lánið stendur í í dag. Ég er búin að reyna í marga mánuði að ná samkomulagi við bankann um einhverja lausn. Ég er búin að vera með lögfræðinga í mínum málum og það kostar sitt. Lausn er ekki í sjónmáli og mér ráðlagt að best væri að skipta bara um kennitölu og halda áfram. Gallinn er bara sá að ég vil það ekki... alls ekki.. mér finnst sú aðferð með öllu óeðlileg, ólíðandi og siðferðislega röng. Einfaldlega vegna þess að það er hægt að leysa þetta mál með mjög einföldum og sanngjörnum hætti fyrir alla aðila. Þ.e. að ég borgi til baka það sem ég fékk að láni eins og allar áætlanir gerðu ráð fyrir og ég haldi áfram rekstri," segir Agnes.

Fær enga fyrirgreiðslu

Hún segir þetta ekki hafa gengið upp því óháð lánanefnd verði að skoða mál fyrirtækis hennar, bíða verði eftir dómum sem varða lánasamninga sem hún hefur gert og á meðan fær hún enga fyrirgreiðslu í bankanum, sem bjargaði á sínum tíma Húsasmiðjunni frá gjaldþroti og hún er í samkeppni við.

„[E]n á meðan blæðir fyrirtækjum út og allir tapa. Verðmæti tapast sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir með því að þora að taka ákvarðanir," segir Agnes.

Vaknið Íslendingar

„Íslendingar vaknið. Samstaða er mikill máttur. Verum virk og veitum stjórnvöldum og fjármálastofnunum aðhald. Með því móti getum við breytt siðferðisvitund þeirra og snúið vörn í sókn," segir Agnes í grein í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.