Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, vill að lögum um helgidagafrið sé breytt og að atvinnurekendur eigi sjálfir að fá að ráða því í samráði við starfsfólk sitt hvort þeir hafi opið á hátíðisdögum. Þetta kemur fram á RÚV .

Lögum um helgidagafrið er ætlað að vernda helgihald og tryggja frið, næði, hvíld og afþreyingu almennings á helgidögum þjóðkirkjunnar. Samkvæmt lögunum er óheimilt að trufla guðsþjónustu eða annað helgihald með hávaða. Leggja þau blátt bann við skemmtunum og verslunarstarfsemi, þó að á jóladag séu veittar undantekningar fyrir starfsemi lyfjabúða, bifreiðastöðva og gisti- og veitingastaða.

„Þið sjáið nú bara þessi straumur ferðamanna og fyrir svona tíu árum síðan þá þekktist þetta ekki. En við verðum jú að geta tekið á móti fólkinu sem er að koma til okkar og svo eru líka Íslendingar sem eru kannski einir um jólin og þurfa þá að fá einhverja aðstoð annars staðar, versla sér eða þá finna sér stað til að fá sér að borða,“ sagði Ólafía í samtali við RÚV