*

föstudagur, 10. júlí 2020
Fjölmiðlapistlar 23. febrúar 2020 13:43

Atvinnurógur

„Hafi Sólveigu Önnu þótt það ósanngjarn samanburður, þá var það hennar að gera athugasemd við það í þættinum í stað þess að etja málpípunum fram til þess að kvarta undan vinnubrögðum RÚV í bland við rætinn atvinnuróg.“

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Verkalýðsbaráttan er hatrömm sem endranær og það skilar sér í fjölmiðla, enda er það þar, sem helst er barist um almenningsálitið. Það sást til dæmis í Kastljósi Ríkisútvarpsins (RÚV) í síðustu viku, þar sem Einar Þorsteinsson fékk þau Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann verkalýðsfélagsins Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins (SA), til þess að ræða kröfur Eflingar á hendur Reykjavíkurborg og möguleg áhrif þeirra, ekki síst þá á lífskjarasamningana frá í fyrra. Þar var að vonum kátt á hjalla.

Sólveig Anna lagði sem áður mikla áherslu á að ótímabundið verkfall ófaglærðra starfsmanna borgarinnar væri boðað til þess að knýja á um bætt kjör láglaunakvenna, sem sinntu mikilvægustu grundvallarstörfum samfélagsins við mikið álag, óboðlegar aðstæður og skammarleg laun og tíundaði sérstaklega hversu lág grunnlaunin væru meðal þeirra umbjóðenda sinna.

Halldór Benjamín sagði að þau væru sammála um markmiðin, bætt kjör hinna lægst launuðu og minnti á hvað áunnist hefði í fyrrnefndum lífskjarasamningum.

Hins vegar benti hann á að kröfurnar sneru ekki einvörðungu að þeim hópi og nefndi til dæmis að gengu þær eftir færu heildarlaun sorphirðumanna, sem eru mestmegnis karlar, úr 630 þúsundum krónum á mánuði í 850 þúsund. Einar spurði Sólveigu Önnu strax hvort þessar tölur væru réttar, en hún svaraði spurningunni ekki og vék talinu að einhverju öðru, sem stóð hjarta hennar nær. Var svo þrefað um stund.

* * *

Í framhaldi af útsendingunni var birt stutt frétt á vef RÚV, að því er virtist aðallega til þess að birta krækju á upptöku af þættinum, en meginfréttapunkturinn var þessar tölur um heildarlaunin í öskunni, sem einnig var tekinn í fyrirsögn.

Á félagsmiðlunum varð fljótt vart við að þessi punktur fór mikið fyrir brjóstið á klíkunni í kringum forystu Eflingar og þar drógu menn nú ekki af sér.

Sagt var að þar hefði RÚV endurómað málflutning SA gagnrýnislaust og af fulllkominni hlutdrægni, að fréttastofan hefði algerlega látið undir höfuð leggjast að kanna sannleiksgildi fullyrðingarinnar og að þar fyrir utan væri þáttarstjórnandinn aldraður stuttbuxnadrengur, útsendari íhaldsins, í vasanum á SA, óvinur alþýðunnar og sitt hvað fleira, sem ekki þykir gott í verkó.

* * *

Nú má vel skilja að Sólveigu Önnu og helstu stuðningsmönnum hennar þyki verra að hún hafi verið sett út af laginu með þessum hætti, en það er erfitt finna að vinnubrögðum RÚV vegna þess. Halldór Benjamín setur fram tölur máli sínu til stuðnings, Sólveig Anna er spurð hvort þær séu réttar, en hún svarar því engu.

Það var um það bil hið eina í þessu kortérslanga viðtali, sem ekki var gerður ágreiningur um, svo það er út í bláinn að telja að einmitt um það óumdeilda atriði - í þætti þar sem fulltrúar ólíkra sjónarmiða mætast til skoðanaskipta - hafi verið sérstakt tilefni til staðreyndaathugunar af hálfu RÚV.

Þar var hins vegar fundinn nýr fréttapunktur - nánast allt annað í þættinum voru gamlar lummur - svo auðvitað var það tekið í fyrirsögn.

Eflingarforystan lét þar þó ekki við sitja, heldur birti um sérstaka athugasemd, þar sem þó var alveg látið vera að „leiðrétta" orð Halldórs Benjamíns um heildarlaunin, heldur haldið áfram að tala um grunnlaunin. Menn komast sjaldan langt á slíkri þrætubók um epli og appelsínur. Og út í hött að RÚV eigi að skera úr um hvort er nú réttara, því hvort tveggja kann að vera rétt. Hafi Sólveigu Önnu þótt það ósanngjarn samanburður, þá var það hennar að gera athugasemd við það í þættinum í stað þess að etja málpípunum fram til þess að kvarta undan vinnubrögðum RÚV í bland við rætinn atvinnuróg.

Og það er kannski það, sem helst ber að staldra við, hvílík áhersla var lögð á að grafa undan trúverðugleika RÚV og fréttamanns þess, án þess þó að færa minnstu rök fyrir því. En það má sjálfsagt heita eitt höfuðeinkenni pópúlista allra tíma og Trump er víða.

* * *

Nýjasta uppnámið vegna framkvæmdar útlendingalaga hefur vart farið fram hjá dyggum fjölmiðlaneytendum, en þar ræðir um íranska fjölskyldu, sem kom til landsins frá Portúgal, hjón og 17 ára transson þeirra. Pilturinn hefur verið lagður inn á barna- og unglingageðdeild og brottvísun fjölskyldunnar verið frestað á meðan, en ýmsir, með samtökin No Borders í broddi fylkingar, hafa orðið til þess að andæfa þeim fyrirætlunum, ekki síst vegna kynáttunar piltsins.

Þarna ræðir um flókin og viðkvæm mál, sem kalla á sérstaka vandvirkni fjölmiðla, en sú er þó ekki alltaf raunin. Þannig mátti t.d. lesa það í Fréttablaðinu (og sömu viðhorf mátti finna í fleiri miðlum) að þar sem pilturinn væri „trans telst augljóst að hann muni ekki njóta sama öryggis í Íran eða Portúgal eins og hér á landi."

Þar er fullmikið sagt. Nú er það auðvitað svo að þó margt hafi áunnist í réttindabaráttu kynsegin fólks á Íslandi, þá hafa helstu talsmenn þess ítrekað að staðan mætti vera mun betri og að Ísland sé langt á eftir nágrannalöndum sínum í þeim efnum.

Það er alveg rétt að kynsegin fólk sætir enn verulegum fordómum í Íran, en á hinn bóginn sker landið sig nokkuð úr í hinum íslamska heimi, því þrátt fyrir að samkynhneigð sé þar ólögmæt eru réttindi transfólks veruleg og njóta velþóknunar klerkaveldisins, kynvitund er viðurkennd af hinu opinbera, kynleiðréttingarferli að miklu leyti niðurgreitt og kynleiðréttingaraðgerðir miðað við höfðatölu næstflestar í heiminum þar.

En hvað má þá segja um Portúgal? Það hefur um allt frá 1982 þótt standa í fremstu röð ríkja heims hvað varðar réttindi kynsegin fólks og er raunar eitt örfárra ríkja, sem bannar mismunun á grundvelli kynhneigðar í stjórnarskrá.

Á hinu viðurkennda regnbogakorti baráttusamtakanna ILGAEurope sést berlega að Portúgal stendur miklu framar en Ísland hvað varðar aðstæður, lagastöðu og mannréttindi kynsegin fólks. Þar er Portúgal talið hafa náð 66% af fullkomnu jafnrétti að þessu leyti, meðal sjö fremstu ríkja Evrópu, en Ísland aðeins 47%. Hér skal ekkert mat lagt á mál fjölskyldunnar, en það stenst enga skoðun að fjölmiðlar segi „augljóst" að transpilturinn njóti meira öryggis á Íslandi en í Portúgal. Raunar harla augljóst að þeir eiga að varast að slá slíkum alhæfingum fram.