Atvinnuleysi í mars var 7,5% samkvæmt tölum Hagstofunnar, samanborið við 7,6% á sama tíma í fyrra. Atvinnulausum fækkaði um 200 milli ára og starfandi einstaklingum fjölgaði um 300. Hlutfall starfandi einstaklinga af áætluðum mannfjölda, þ.e. þeim sem geta unnið, var 73,4% og hefur ekki verið lægra á því tímabili sem tölur er að finna fyrir, en mánaðarlegar tölur Hagstofunnar ná aftur til ársins 2003.

Áætlaður mannfjöldi jókst um 800 milli ára, en einstaklingum utan vinnu fjölgaði um 700 á meðan aðeins 100 manns fóru inn á vinnumarkaðinn. Meðalfjöldi vinnustunda á viku í mars nam 40,2 og hefur ekki verið meiri frá því í mars 2007 þegar hann nam 42,5 klukkustundum.

Atvinnuleysi karla mældist 9,0% í mars í ár en nam 10,0% á sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi meðal kvenna jókst hins vegar milli ára. Var 5,1% í fyrra en var 5,9% í mars í ár og hefur ekki verið hærra frá því að samantekt þessara talna hófst árið 2003. Atvinnulausum konum fjölgaði um 600 milli ára en atvinnulausum körlum fækkaði hins vegar um 700 á tímabilinu.