Atvinnuþátttaka kvenna er hvergi meiri innan ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, en á Íslandi. Atvinnuþátttaka íslenskra kvenna var 79,6%, samkvæmt nýrri skýrslu OECD sem Morgunblaðið vísar í. Í öðru sæti eru konur í Sviss, þar sem atvinnuþátttaka kvenna á aldrinum 15 til 64 ára var 75,1% og í þriðja sæti eru konur í Noregi þar sem þátttakan er 73,5%. Þessar upplýsingar eru miðaðar við fjórða ársfjórðung síðastliðins árs.

Meðalatvinnuþátttaka kvenna í öllum löndum sem tölur OECD ná til var einungis 57,4% á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Meðalatvinnuþátttaka í öllum löndunum, bæði kyn á fjórða ársfjórðungi, var hins vegar 65,3%.

Atvinnuþátttaka karla á Íslandi á aldrinum 15 til 64 ára á fjórða ársfjórðungi 2013 var 83,7%, Atvinnuþátttaka karla á síðasta ársfjórðungi í fyrra í Sviss var 85,2% og var það eina landið sem sýndi meiri atvinnuþátttöku karla, en Ísland.