Von er afgreiðslu frumvarps um veiðigjald úr atvinnuveganefnd í dag. Gerðar hafa verið umfangsmiklar breytingar á frumvarpinu sem meðal annars fela í sér lækkun veiðgjaldsins. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Samkvæmt heimildum blaðsins var ákveðið að bregðast við ýmsum athugasemdum sem komið höfðu fram, til dæmis varðandi skuldsetningu fyrirtækja.

Atvinnuveganefnd hefur sem kunnugt er hitt fjölda sérfræðinga á meðan málið hefur verið til meðferðar. Meðal annars fól nefndin sérfræðingum að reikna áhrif þess að sérstakt veiðgjald yrði lækkað um helming. Niðurstaða útreikninga var að miðað við slíka útgáfu veiðigjaldsins gætu flest stærri sjávarútvegsfyrirtæki ráðið vel við gjaldið.

Í Fréttablaðinu segir að ekki liggji nákvæmlega fyrir hver upphæð veiðigjaldsins verði eftir breytingarnar. Heimildir blaðsins herma þó að það gæti skilað allt að 14 til 15 milljörðum í ríkissjóð. Í nýrri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir 17 milljörðum í tekjur af veiðgjaldi á næsta ári.