Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, hefur ákveðið að áfrýja ekki niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur í máli ríkisfyrirtækisins gegn netverslunum Santewines og Bjórland en þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu ÁTVR. Héraðsdómur vísaði frá öllum kröfum ÁTVR fyrr í mánuðinum .

ÁTVR tekur þó fram að hún telji slíkar vefverslanir ekki samrýmast lögum, gangi gegn einkaleyfi ÁTVR og séu í beinni andstöðu við gildandi áfengis- og lýðheilsustefnu.

„Bæði fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með málefni laga um verslun með áfengi og tóbak, og dómsmálaráðherra, sem fer með áfengislögin, telja nauðsynlegt að endurskoða og skýra lög og regluverk um smásölu áfengis. ÁTVR hefur því ákveðið að una niðurstöðu héraðsdóms í trausti þess að löggjafinn og eftirlitsaðilar taki á málinu,“ segir í tilkynningunni.