„Það er hálfvandræðalegt að geta ekki selt [viðskiptavinum] vín, öll gjöld af vörunni eru greidd, ég á hana – en þú mátt ekki fá hana, vegna lýðheilsusjónarmiða. Hinsvegar máttu kaupa hana á veitingahúsi þrefalt dýrari og drekka hana á staðnum,“ segir í umsögn Halldórs Laxness Halldórssonar, annars eigenda Berjamós ehf., við frumvarpsdrög dómsmálaráðherra um breytingar á áfengislöggjöfinni.

Verði frumvarpið að lögum verður innlendum vefverslunum heimilt að selja áfengi beint til neytenda. Í drögunum segir að unnið verði áfram að breytingum sem heimila áfengisframleiðendum að selja eigin brugg á framleiðslustað. Hingað til hafa íslenskir neytendur getað pantað áfengi erlendis frá og fengið það sent heim að dyrum en slíkt hefur ekki verið heimilt innanlands. Breytingin mun heimila sendingar á áfengi heim að dyrum eða að sækja það á starfsstöð leyfishafans.

Samráðsferli frumvarpsins stendur nú yfir en því lýkur á morgun. Halldór, einnig þekktur sem Dóri DNA, er í hópi þeirra sem sendir inn umsögn. Fyrrgreint fyrirtæki hans, Berjamór, flytur hingað til lands svokölluð náttúruvín. Þau vín eru gerð úr lífrænt ræktuðum berjum og eru án aukaefna. Í umsögninni lýsir hann stappi við ÁTVR og þeirri skoðun sinni að sérhæfðar áfengisverslanir gætu breytt drykkjumenningu Íslendinga til hins betra. Frumvarpið sé skref í þá átt.

Ríkið valtað yfir Berjamó í rólegheitunum

„[ÁTVR] og reglur hennar hafa gert okkur mjög erfitt um vik. Ég gæti talið upp ótal dæmi, vín frá okkur hefur verið tekið úr sölu vegna þess að nafn framleiðandans er ekki stærra en 1,3 mm, sem er skylda samkvæmt löggjöf ESB. Samt er umrætt vín ítalskt, framleitt í Evrópu og selt um alla Evrópu. En hér á Íslandi strandar það á skerjum regluverks ESB, sem er svo sem sjálfsagt – auðvitað getur ríkisfyrirtækið ekki horft í gegnum fingur sér með svona,“ segir í umsögninni.

Þar segir enn fremur að annað vín félagsins hafi verið tekið úr sölu vegna þess að á því stendur „Vini-bianco“. Að sögn Halldórs vildi ÁTVR fá á það límmiða sem á stæði „hvítvín – og er það grátbroslegt í besta falli.“ ÁTVR hafi einnig tekið upp eigin skilgreiningu á hvað væri náttúruvín sem væri þvert á allar aðrar skilgreiningar heimsins. Stærri birgjar geti nú flutt inn vín merkt náttúruvín sem séu það alls ekki „á miklu lægra verði en við gerum nokkurn tímann boðið – og neytendur hafa ekki hugmynd um það.“

„Svona ákvarðanir sem teknar eru í hálfkæringi á skrifstofu ÁTVR, geta hæglega kostað smáa innflytjendur reksturinn. Og þetta er ekki í lagi. En ekki getum við kvartað í neinum, bara látið Ríkið valta yfir okkur í rólegheitum,“ segir í umsögninni.

Vín selt út um bakdyr og framhjá bókhaldi

Halldór segir að náttúruvín séu umdeild innan vínheimsins og margir hafi tekið tilvist þeirra sem einhverskonar stríðsyfirlýsingu við sig. Þess þekkist dæmi, sjálfur segir hann hafa lent í einu slíku, að starfsmenn Vínbúðarinnar hafi staðið við náttúruvínsrekkann og ráðið viðskiptavinum að kaupa þau ekki.

„Þetta er hálf ömurlegt. Að finna góðan framleiðanda, flytja inn vínið frá honum, og leggja það svo í hendur þriðja aðila (ríkisins) að selja það – sem ræður fólki frá því því honum finnst að sér vegið persónulega!“ segir Halldór.

Náttúruvínin eigi sér dyggan stuðningshóp hér á landi og hann fái ótal fyrirspurnir frá fólki sem vill versla við hann. Það sé hins vegar ekki heimilt og honum nauðsynlegt að vísa fólki frá eða á veitingahús þar sem vínið sé selt.

„Þetta er ekki fólk sem vill verða mígandi fullt og gubba og berja einhvern. Þetta eru yfirleitt matgæðingar, áhugafólk um vín, safnarar eða álíka,“ segir Halldór.

Skoðaði að selja fyrirtækið til Danmerkur

Flækjustigið í kringum reksturinn sé mikið og ekki hjálpi til að ríkið sé að reyna bregða fyrir hann fæti. Eigendur Berjamós hafi meira að segja íhugað að selja fyrirtækið til dansks fyrirtækis, hafa lagerinn áfram á Íslandi en láta viðskiptin fara í gegnum dönsku vefverslunina.

„Þetta eru hundakúnstir sem mér hugnast ekki. Netverslun myndi gera okkur kleift að selja vínin til þeirra sem vilja kaupa þau. Milliliðalaust. Þetta myndi alfarið breyta okkar rekstri. Verði lögin ekki samþykkt, þá spyr maður sig einfaldlega hvaða feluleik stjórnvöld vilja halda uppi? Við verðum að líta á staðreyndir málsins í stað þess að loka augunum og signa okkur og vera í siðferðislegum feluleik við raunveruleikann,“ segir Halldór.

Vín gangi kaupum og sölum í Reykjavík þrátt fyrir hömlur. Í Facebook- og WhatsApp grúppum sé boðið upp á heimsendingu á bjór, sterku áfengi og heimabruggi. Innflytjendur, stórir sem smáir, leki flöskum fram hjá bókhaldi og veitingastaðir selji vín út um bakdyrnar hvert einasta kvöld. Þeir sem efni hafa á panti sér vín á netinu erlendis frá.

„Væri ekki hreinna og beinna að gera þetta fyrir opnum tjöldum? Og styrkja forvarnir þar sem það á við, tillagan í þessu frumvarpi er ekki byltingakennd og mun engu breyta fyrir neytendur þannig séð, þeir hafa til þessa getað pantað sér vín af netinu, bæði frá útlöndum og af ÁTVR. Kannski, með því að treysta fagfólki og fólki sem er ástríðufullt fyrir víni til þess að selja það sjálft, má í leiðinni vinda ofan af ofdrykkjumenningu Íslendinga og reyna innleiða kúltíveraðri nálgun á víndrykkju,“ segir Halldór að lokum.

Sem fyrr segir rennur frestur til umsagna út á morgun.