Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hefur keypt sumargjafir fyrir starfsmenn ríkisfyrirtækisins fyrir alls 80 milljónir króna að núvirði á síðastliðnum tíu árum. Að meðaltali hefur fyrirtækið greitt um 10,7 milljónir á ári síðustu fimm árin en í sumar fengu allir 380 starfsmenn þess göngubuxur fyrir samtals 11,4 milljónir króna. Greint er frá þessu í DV .

„Það er ekkert samræmi þegar kemur að ríkisfyrirtækjum eins og ÁTVR varðandi í hvað fjármunir þeirra eiga að fara á meðan starfsmenn í grunnþjónustu ríkisins, löggæslunni, menntakerfinu og heilbrigðisþjónustunni, sem eru á hefðbundnum fjárlögum, fá lítið sem ekkert,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar, í samtali við DV.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir í samtali við DV að gjafirnar séu liður í heilsueflingu starfsmanna. Tilgangurinn sé meðal annars að hvetja starfsfólk ríkisfyrirtækisins til hreyfingar og útivistar.

„Þetta er allt mjög sérstakt í ljósi þess hversu lítið er gert fyrir starfsmenn stofnana sem sinna að mínu mati mun mikilvægara hlutverki en vínverslun, með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu stofnun. Þegar ég var heilbrigðisráðherra beitti ég mér fyrir því að starfsmenn Landspítalans fengju allavega eitthvað en á þeim tíma fengu þeir ekki einu sinni jólakort. Þeir fengu þá geisladisk í jólagjöf,“ segir Guðlaugur Þór.