Breytt frumvarp um afnám áfengiseinkasölu ríkisins er að mati Pawel Bartoszek, eins flutningsmanns þess með breiðari stuðning á þingi en áður og líklegra til að vera samþykkt ef það kæmist í atkvæðagreiðslu.

„Við erum að leggja til þrjár stórar breytingar við upphaflegt frumvarp, en svo eru aðrar minni,“ segir Pawel, en frumvarpið gerir nú ráð fyrir að það fé sem renni til lýðheilsusjóðs af áfengisgjaldinu geti verið nýtt til hvort tveggja forvarna og til rannsókna á áhrifum breyttrar löggjafar.

Hætt við að leggja niður ÁTVR

„Í fyrsta lagi gerum við ekki lengur ráð fyrir að ÁTVR verði lagt niður, heldur eru gerðar breytingar á lögunum og einkaleyfið fellt út þannig að ríkið verði ekki lengur einokunaraðili. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að reksturinn geti haldið áfram tiltölulega óbreyttur.

Í öðru lagi gerum við ráð fyrir að verslun með áfengi fari alfarið inn í sérverslanir, annars vegar sérverslanir líkt og verslanir ÁTVR eru nú, sem einungis selja áfengi, og svo í sérverslanir með matvörur, til dæmis ostabúðir, kjötbúðir, fiskbúðir og þess háttar, það er ekki á hinn hefðbundna dagvörumarkað.

Í þriðja lagi erum við að skerpa betur áfengisauglýsingakaflann, þannig að við erum að taka til greina Evrópulöggjöf á þessu sviði, þar sem settar eru ákveðnar hömlur á efnisinnihald auglýsinganna. Til dæmis má ekki sýna ungt fólk og höfða til þess, með því að gefa til kynna að áfengi leiði til árangurs á félagslega sviðinu, það má ekki tengja áfengi kynlífi og margar aðrar viðmiðanir sem eru í tilskipununum.

Í raun göngum við örlítið lengra, að franskri fyrirmynd, þar sem einungis má auglýsa vörumerkið sem slíkt, tegundina, segja frá framleiðsluaðferðinni, úr hverju varan er gerð, styrkleika og neysluaðferð. Eiginlega þannig að það má sýna bjórglas og upplýsingar um innihald en ekki að sá sem neyti þess verði til að mynda vinsæll fyrir vikið.“

Auglýsingar á léttöli lúti sömu reglum og aðrar áfengisauglýsingar

Þess utan eru takmarkanir á sýningartíma áfengisauglýsinga, þannig að þær verði ekki heimilar í ljósvakamiðlum nema eftir 9 á kvöldin og fyrir 7 á morgnana. Þær yrðu heldur ekki heimilar í blöðum sem ætluð eru börnum, eða í kvikmyndahúsum eða í tengslum við íþrótta- eða menningarviðburði.

„Mjög margt af því sem við erum að gera er í raun að líta til þess hvernig framkvæmdin er í reynd,“ segir Pawel og vísar til þess að víða á landsbyggðinni fer áfengissalan fram í sérrýmum verslana, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er einungis gert ráð fyrir að það verði heimilað þar sem ekki eru forsendur fyrir sérverslanir með áfengi.

Einnig hafa auglýsendur nýtt sér glufur í núverandi löggjöf um áfengisauglýsingar. „Það er verið að setja talsverðar skorður, en hins vegar erum við að reyna að skapa möguleika fyrir innlenda aðila að auglýsa áfengi á löglegan hátt. Þessar reglur munu einnig ná til auglýsinga á léttöli.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .