Reksturinn gekk heilt yfir ágætlega í fyrra og mun betur en við hefðum þorað að vona þegar COVID-19 heimsfaraldurinn var nýskollinn á og óvissan var mikil. Í mars á síðasta ári var mjög erfitt að átta sig á því hvaða áhrif faraldurinn myndi hafa á rekstur Vínness. En þegar horft er til baka spilaðist nánast eins vel úr þessu og maður hefði getað hugsað sér," segir Birkir Ívar Guðmundsson, framkvæmdastjóri áfengisinnflytjandans og -heildsalans Vínness, sem er umboðsaðili fjölda þekktra áfengisvörumerkja hér á landi.

Hagnaður Vínness nam 169 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 38% frá árinu 2019. Tekjur félagsins jukust að sama skapi milli ára, eða úr tæplega 2,4 milljörðum króna í ríflega 2,7 milljarða króna.

Eftir að fyrrnefndur heimsfaraldur tók sér bólfestu hér á landi breyttist viðskiptavinasamsetning Vínness. Mikilvægir viðskiptavinir á borð við veitingastaði og bari neyddust margir hverjir, ýmist tímabundið eða ótímabundið, til að skella í lás. Vínnes hefur einnig selt mikið af áfengi í Fríhöfnina og til flugfélagsins Icelandair, en líkt og gefur að skilja dró verulega úr umsvifum þeirra viðskipta samhliða umfangsmiklum ferðatakmörkunum á millilandaferðalögum. „Þessi viðskipti fóru á einni nóttu nánast niður í núll," segir Birkir. Aftur á móti jukust umsvif Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) verulega á faraldurstímum. „Blessunarlega héldust Vínbúðirnar opnar á meðan faraldurinn geisaði og má segja að nær öll eftirspurnin hafi vegna aðstæðna í þjóðfélaginu færst þangað," bætir Birkir við.

Hægt og rólega að færast í fyrra horf

Birkir segir að á þessu ári hafi rekstrarumhverfi Vínness verið að færast hægt og rólega yfir í fyrra horf, enda aðilar sem faraldurinn bitnaði mikið á, á borð við flugfélög, Fríhöfnina, bari og veitingastaði, smátt og smátt verið að ná vopnum sínum á ný. „Viðskiptavinasamsetningin og eftirspurnarhliðin er ekki enn komin á sama stað og fyrir faraldurinn en það er virkilega jákvætt að þessir viðskiptavinir okkar sem ástandið hefur bitnað hvað verst á séu að styrkjast með hverjum deginum sem líður."

Birkir kveðst sökum þessa bjartsýnn fyrir því að rekstur Vínness muni ganga enn betur á þessu ári heldur en því síðasta. Hann bendir þó á, í samhengi við aukningu á millilandaferðalögum landsmanna, að fólk kaupi ekki sama drykkinn á tveimur stöðum samstundis og því megi reikna með að sala til ÁTVR muni dragast saman.

Bíða átekta

Áhugaverðir hlutir hafa verið að gerast undanfarið í netverslun á íslenskum áfengismarkaði. Um nokkuð langt skeið hafa landsmenn, sem aldur hafa til, haft möguleika á að panta áfengi úr erlendum netverslunum. Hafa ýmsir bent á að það skjóti skökku við, enda hygli það erlendum netverslunum á kostnað innlendra rekstraraðila sem hefðu hug á að starfrækja slíka verslun. Frumvörp sem ætlað hefur verið að jafna út þessa skekkju hafa ekki hlotið náð fyrir augum Alþingis, auk þess sem deilt er um hvort þetta fyrirkomulag standist lög. Hafa nokkrir innlendir aðilar, á borð við Sante, Bjórland og Nýju Vínbúðina, ákveðið að láta reyna á það og sett á fót netverslun, t.d. með því að stofna fyrirtæki erlendis sem síðan rekur verslunina. Við þetta sættir ÁTVR sig ekki og hefur gert allt sem í sínu valdi stendur til að stöðva rekstur þessara verslana, m.a. með því að fara fram á lögbann á hendur vefverslunum sem selja áfengi beint til neytenda hér á landi.

Birkir segir Vínnes fylgjast grannt með gangi mála hvað ofangreint varðar. Mat þeirra lögfræðinga sem fyrirtækið hefur leitað til sé þó að þessi krókaleið standist ekki lög. „Við fylgjumst auðvitað vel með og undirbúum okkur eftir því sem það koma einhverjar niðurstöður í þessi mál. Við bíðum átekta áður en endanleg ákvörðun verður tekin í þessu máli. Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða þessara mála verður."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .