Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) hefur sent frá sér tilkynningu þar sem niðurstöðum Clever Data, þess efnis að rekstur verslunarinnar standi ekki undir sér , er alfarið hafnað. Segir að niðurstöðurnar séu vangaveltur sem eigi sér litla stoð í raunveruleikanum. ÁTVR hafi aldrei verið rekin með tapi frá því að áfengisgjöld og tóbaksgjöld voru aðskilin frá rekstrartekjum verslunarinnar.

Í tilkynningunni segir að ÁTVR sé lögum samkvæmt rekin sem ein heild. Starfsemi að því er varðar smásölu áfengis annars vegar og heildsölu tóbaks hins vegar sé ekki aðgreind í rekstri fyrirtækisins eða bókhaldi. Í bókhaldi sé ekki sundurgreint hvernig kostnaður deilist á milli áfengis- og tóbakshlutans og því séu engin gögn til um kostnaðarskiptinu. Kostnaður vegna vörunotkunar áfengis annars vegar og tóbaks hins vegar sé aftur á móti aðgreindur í rekstrinum og sundurliðaður í ársreikningi.

„Rétt er að benda á að ÁTVR ræður ekki álagningu sinni á áfengi og tóbak. Smásöluálagning á áfengi og heildsöluálagning á tóbak hefur verið lögákveðin frá því síðla árs 2008, þegar lög nr. 149/2008, um breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 63/1969, með síðari breytingum tóku gildi. Það er því Alþingis að ákveða hver álagning ÁTVR á áfengi og tóbak skuli vera.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. núgildandi laga um verslun með áfengi og tóbak skal álagning ÁTVR á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli vera 18% en álagning áfengis með meira en 22% hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 12%. Samkvæmt 3. mgr. sama lagaákvæðis skal heildsöluálagning ÁTVR á tóbak vera 18%. Álagning ÁTVR á áfengi og tóbak leggst á verð vöru að viðbættum öllum gjöldum nema virðisaukaskatti, sbr. 4. mgr. tilvitnaðs lagaákvæðis.

Sjá má af ársreikningi ÁTVR að heildsala tóbaks skilar hlutfallslega meiri hagnaði en smásala áfengis. Munurinn ræðst fyrst og fremst af ákvörðun Alþingis um álagningu, sem áður er vísað til, og eins því að eðli máls samkvæmt kallar smásala áfengis á talsvert fleiri handtök og meira umstang en heildsala á tóbaki,“ segir í tilkynningunni.