Ríflega 506 milljóna króna hagnaður varð á rekstri ÁTVR á síðasta ári samkvæmt ársreikningi félagsins. Þrátt fyrir að hagnaður þess hafi dregist saman um 16% á milli ára var reksturinn umfram áætlanir. Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings.

„Það birtist meðal annars fram í vörusölu sem var 7% umfram áætlanir, en rekstrartekjur námu rúmum 19,3 milljörðum króna sem var um 8,7% hækkun á milli ára. Hins vegar var öllu meiri aukning rekstrargjalda, að teknu tilliti til afskrifta, um 9,9% og námu þau rúmum 19 milljörðum króna. Arðsemi eiginfjár var um 19,4% á síðasta ári samanborið við 27,7% árið 2006,“ segir í Hálffimm fréttum.