Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) auglýsir eftir starfsmanni í sumarafleysingar til að til að vinna við framleiðslu á neftóbaki hjá dreifingarmiðstöð fyrirtækisins í sumar. Þrír vinna við tóbaksframleiðsluna.

Í morgun var frá því greint að í fyrra seldust alls 27,6 tonn af neftóbaki. Það var 4,1% minna en árið 2012. Verðið hefur hins vegar snarhækkað eða um 460% frá árinu 2003. Munar þar mjög um nærri 70% hækkun sem Alþingi ákvað í fjárlögum í fyrra.

Fram kemur í auglýsingu um starfið að almenn lagerstörf verði á meðal helstu verkefna viðkomandi auk framleiðslu á neftóbaki. Vinnutími er frá klukkan 7:30 til 16:30 alla virka daga. Hæfniskröfurnar eru stundvísi og dugnaður, nákvæm vinnubrögð og snyrtimennska, hreint sakavottorð og þarf umsækjandi að vera tvítugur eða eldri. Umsóknarfrestur er til og með 30. apríl næstkomandi.

Þeir sem landa starfinu mega ekki neyta neftóbaks í vinnunni. Samkvæmt upplýsingum frá ÁTVR er slíkt bannað innan girðingar lóða ríkisstofnana og fellur rekstur ÁTVR þar undir.