Hagnaður ÁTVR á árinu 2012 var 1.340 milljónir króna. Á árinu jókst sala áfengis í fyrsta sinn frá árinu 2008. Salan jókst um 0,54% í lítrum talið á milli áranna 2011 og 2012, að því er segir í frétt á vef fyrirtækisins .

Almennt var samdráttur í sölu tóbaks á árinu 2012, að lausu reyktóbaki undanskildu en þar er aukning um 12%. Sala neftóbaks dróst saman um 4,9% og sala á vindlingum um tæp 3%.

Heildartekjur voru 26,6 milljarðar, þar af voru tekjur af sölu áfengis 17,8 milljarðar og tekjur af sölu tóbaks 8,7 milljarðar. Útgjöld námu alls 25,2 milljörðum, þar af var vörunotkun 22,6 milljarðar. Alls greiddi ÁTVR 1.050 milljónir króna í arð til ríkissjóðs.

Árið 2008 þegar salan í lítrum fór hæst voru seldir 20.387.345 lítrar. Árið 2012 voru seldir 18.537.255 lítrar eða rúmlega 9% færri lítrar en árið 2008.